Þakklátur fyrir að fá að fara í landsliðstreyjuna

Janus Daði Smárason kominn í gegnum vörn Norðmanna og skorar …
Janus Daði Smárason kominn í gegnum vörn Norðmanna og skorar eitt átta marka sinna í leiknum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Janus Daði Smárason snéri aftur á völlinn í dag þegar Ísland tapaði naumlega fyrir Noregi eftir framlengdan leik í síðasta leik sínum á EM í handknattleik í Búdapest. 

Janus lék síðast gegn Dönum en fór eftir þann leik í einangrun. Janus var heldur betur frískur og skoraði 8 mörk í leiknum en það hlýtur að hafa verið erfitt að kyngja þessu tapi?

„Já já. Kannski er dæmigert í svona leik að þetta fari á sem mest svekkjandi veg. Svona er íþróttin. Það getur verið stutt á milli,“ sagði Janus þegar mbl.is ræddi við hann. 

„Við sýnum í leik eftir leik að það skiptir engu hver er inn á hjá okkur. Við erum með getu og kraft til að vinna hvaða lið sem er en það gekk því miður ekki upp í dag. Menn eru í misjafnri stöðu. Við vorum með menn sem hafa spilað alla leikina en einnig aðra sem hafa spilað minna. Menn spiluðu meira að segja fyrstu A-landsleikina í mótinu. Við getum gengið í burtu frá þessu móti með kassann úti.“

Oft var tekið hraustlega á Janusi þegar hann keyrði framhjá …
Oft var tekið hraustlega á Janusi þegar hann keyrði framhjá varnarmönnum Noregs. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Erfitt er að leika á móti norska liðinu. Þar er að finna heimsklassa leikmenn og norska liðið heldur uppi miklum hraða í leikjum.

„Þeir voru flottir. Við gleymdum okkur stundum í sókninni og fórum þá að sækja inn á miðjuna en fundum yfirleitt lausnir. Úrslitin í svona jöfnum leikjum velta ekki á tveimur eða þremur atriðum,“ sagði Janus en hvernig var fyrir hann að fara aftur inn á völlinn og taka þátt í hörkuleik eftir að hafa verið lokaður inni á hótelherbergi.

„Það sem manni þykir vænst um er að fara í landsliðstreyjuna og berjast með þessum gaurum fyrir Ísland. Maður er þakklátur fyrir það enda er það ekki sjálfsagt eins og sýndi sig á EM. Fyrir mig var gott að fá að taka þátt í leiknum og við getum sem lið tekið helling með okkur úr þessu móti. En ég hef oft verið í betra leikformi en í dag enda ekki gert neitt í viku. Annað hvort væri maður þreyttur út af smiti eða maður væri þreyttur af því að maður hefði spilað alla leikina. Þegar komið er svona langt í mótinu þá getur þetta alltaf verið erfitt hvort sem er,“ sagði Janus Daði Smárason en leikurinn í dag var áttundi leikur liðsins í keppninni. 

mbl.is