Varla hægt að lýsa með orðum

Guðmundur Guðmundsson fylgist með á hliðarlínunni í dag.
Guðmundur Guðmundsson fylgist með á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Maður er hálforðlaus,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við RÚV eftir 33:34-tap fyrir Noregi í leik um fimmta sætið á EM og sæti á lokamóti HM á næsta ári. Úrslitin réðust á síðustu sekúndunni í framlengingu.

„Í fyrsta lagi hefðum við getað gert út um leikinn í venjulegum leiktíma en þetta var hroðaleg óheppni. Síðan var þetta mjög jafnt í framlengingunni en það sem drengirnir mínir eru búnir að gera hérna, við þessar aðstæður, er varla hægt að lýsa með orðum,“ bætti hann við.

Mikið álag var á nokkrum leikmönnum Íslands, sem voru orðnir ansi laskaðir á lokakaflanum. „Það voru leikmenn á vellinum sem gátu varla hlaupið lengur en þeir pína sig áfram. Við vorum komnir í mjög erfiða stöðu, þar sem miðja varnarinnar var farin með skiptimenn. Þetta var mjög erfitt en ég er ótrúlega stoltur af drengjunum. Þetta var stórkostleg frammistaða miðað við allt.“

Þrátt fyrir fjarveru margra leikmanna vegna kórónuveirunnar og meiðsla, átti íslenska liðið í fullu tré við það norska. „Nú sjáum við hvert við erum komnir. Það vantaði átta menn í liðið en samt vorum við að mæta besta liði í heimi og erum síst verri. Drengirnir eiga ótrúlegt hrós skilið.“

Guðmundur vildi annars lítið tjá sig um framtíð sína með liðið, en núgildandi samningur hans gildir til næsta sumars. „Ég hef ekkert með það að gera. Boltinn liggur algjörlega hjá HSÍ, ekki hjá mér. Ég þarf að tala við þá, en ég veit ekki hvað þeir vilja,“ sagði Guðmundur.

mbl.is