Viðurkenndur föðurbetrungur

Viktor Gísli Hallgrímsson.
Viktor Gísli Hallgrímsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Markvörðurinn hávaxni Viktor Gísli Hallgrímsson hefur heillað marga íþróttaunnendur með frammistöðu sinni á EM í Búdapest. 

Viktor spilar handbolta með bros á vör og frammistaða hans í stórsigrinum á Frökkum verður líklega lengi í minnum höfð. 

Faðir Viktors, Hallgrímur Jónasson fyrrverandi markvörður ÍR, Selfoss og Fram, fullyrti í færslu á samfélagsmiðlum að Viktor væri orðinn föðurbetrungur þegar kæmir að markvörslunni. Hallgrímur beið þó þar til eftir sigurinn á Frökkum til að lýsa þessu yfir. Viktor segir viss tímamót hafa í þessu falist þegar blaðamaður færir þetta í tal við hann í Búdapest.

„Það er gaman að hann sé að viðurkenna þetta í fyrsta skipti því hann hafði aldrei viðurkennt þetta formlega. Hann hafði áður sagt við mig að ég ætti A-landsleik en ekki hann. En hann hafði aldrei sagt að ég væri orðinn betri en hann. Ég sá hann aldrei spila, alla vega ekki heilan leik,“ sagði Viktor og hafði augljóslega gaman að þessu innlegi Hallgríms í EM-umræðuna.

Eftir að hafa unnið fimm leiki að sjö á EM og tvo þeirra við afar erfiðar kringumstæður var íslenska liðið nálægt því að komast í undanúrslit. Sérstaklega þegar Danmörk hafði fimm marka forskot gegn Frakklandi en það rann út í sandinn.

„Maður var búinn að gera sér smá vonir um að komast í undanúrslit sérstaklega eftir fyrri hálfleikinn hjá Dönum og Frökkum. Þetta var því svolítið súrt en það er erfitt að þurfa að treysta á aðra og hafa ekki stjórn á aðstæðum. Við hefðum bara þurft að gera betur á móti Króatíu og ættum frekar að horfa þannig á en að kenna Dönunum um þetta,“ sagði Viktor en telur að leikurinn í dag gegn Noregi geti orðið skemmtilegur.

Viktor Gísli Hallgrímsson í leiknum gegn Svartfjallalandi.
Viktor Gísli Hallgrímsson í leiknum gegn Svartfjallalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Mér líst bara vel á að mæta þeim. Við höfum keppt nokkrum sinnum við þá á síðustu mótum og þetta hafa verið hörkuleikir. Ég held því að þessi leikur verði það einnig,“ sagði Viktor en af þessu má kannski draga þá ályktun að íslenskir íþróttaunnendur þurfi að þola enn einn spennuleikinn á EM.

„Já það gæti vel verið. Kæmi mér ekki óvart.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert