Aleix Gómez átti sannkallaðan stórleik og skoraði ellefu mörk fyrir Spánn er liðið vann 29:25-sigur á Danmörku í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta í gær og tryggði sér sæti í úrslitum þriðja Evrópumótið í röð.
Fjallað er um Gómez, sem er 24 ára leikmaður Barcelona, í spænska miðlinum Marca í dag. Þar kemur fram að Spánverjinn hefur aldrei verið valinn besti hægri hornamaður EM, þrátt fyrir að Spánverjar séu meistarar síðustu tveggja móta og komnir í úrslit þriðja mótið í röð.
Marca virðist skjóta á danska leikmenn í umfjölluninni og hve oft þeir eru valdir bestu leikmenn í sinni stöðu á EM. „Ef hann væri danskur og myndi heita Alexander Gomessen væri hann án efa talinn besti hægri hornamaður Evrópu og heimsins,“ segir m.a. í umfjölluninni.