Ekkert að marka þessa „tralala“ umræðu

„Við eigum fullt af góðum handboltamönnum og við þurfum að vera tilbúin að taka djarfar ákvarðanir og gefa mönnum tækifæri,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í efstu deild karla í handknattleik, í EM-uppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Alls greindust ellefu leikmenn íslenska karlalandsliðsins með kórónuveiruna á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Í fjarveru lykilmanna fengu óreyndir leikmenn óvænt tækifæri með liðinu á sínu fyrsta stórmóti og hefur breiddin í íslenska liðinu aukist til muna eftir innkomu þeirra.

„Mér fannst við kannski hanga of lengi á þessum eldri leikmönnum í denn þegar við áttum unga og efnilega stráka sem hefðu ef til vill átt að fá traustið fyrr,“ sagði Halldór Jóhann.

„Ég er ekki hrifinn af þessari hugmyndafræði. Þú ert valinn í landsliðið út frá getu og hæfileikum og það er enginn tími til þess í dag að gefa mönnum tækifæri,“ sagði Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður hjá Sýn.

„Ég kalla þessa umræðu um að gefa mönnum tækifæri tralala og það er ekkert að marka þetta,“ bætti Guðjón við.

EM-uppgjör Dagmála má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert