Svíar endurheimta þrjá fyrir úrslitaleikinn

Niklas Ekberg er klár í slaginn fyrir úrslitaleikinn.
Niklas Ekberg er klár í slaginn fyrir úrslitaleikinn. AFP

Glenn Solberg, landsliðsþjálfari Svíþjóðar í handbolta, fékk aldeilis góðar fréttir fyrir úrslitaleik Evrópumótsins sem fram fer seinnipartinn í dag.

Svíþjóð mætir Spáni í úrslitaleiknum en í morgun kom í ljós að þrír leikmenn liðsins eru lausir úr einangrun eftir Covid-smit. Þetta eru þeir Niclas Ekberg leikmaður Kiel í Þýskalandi, Hampus Wanne leikmaður Flensburg í Þýskalandi og Felix Claar leikmaður Álaborgar í Danmörku. 

Þrátt fyrir að þetta séu frábærar fréttir fyrir flesta Svía eru þrír aðilar sem eru væntanlega ekki jafn kátir með þær. Það eru þeir leikmenn sem Solberg þarf að fórna og taka úr hópnum til að koma hinum fyrir. Sænska blaðið Aftonbladet segist hafa heimildir fyrir því að það verði þeir Emil Mellegård, Jonathan Edvardsson og Peter Johannesson. Allir leika þeir í þýsku A-deildinni svo það er ljóst að um gæðaleikmenn er að ræða.

„Þetta er erfið ákvörðun en hún er hluti af starfinu,“ sagði Solberg um málið.

Það kemur endanlega í ljós klukkan fjögur hvaða leikmenn verða þeir óheppnu að þurfa að horfa á úrslitaleikinn úr stúkunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert