Þriðji í sögunni sem er valinn bestur tvisvar

Jim Gottfridsson fagnar að leik loknum.
Jim Gottfridsson fagnar að leik loknum. AFP

Svíinn Jim Gottfridsson var valinn besti leikmaður Evrópumótsins í handbolta en hann leiddi þjóð sína til sigurs á mótinu. Svíþjóð vann Spán í æsispennandi úrslitaleik í dag þar sem Niclas Ekberg skoraði sigurmarkið úr vítakasti eftir að leiktíminn var runninn út.

Þetta er í annað sinn sem Gottfridsson er valinn besti leikmaður Evrópumótsins en hann var einnig valinn árið 2018. Þá fór mótið fram í Króatíu en úrslitaleikur mótsins var þá einnig á milli Spánar og Svíþjóðar. Þá vann Spánn hins vegar sex marka sigur og varð Evrópumeistari. Leikurinn um þriðja sætið á því móti var svo á milli Frakklands og Danmerkur, líkt og í ár.

Eftir að hafa verið valinn besti leikmaður mótsins í ár bættist Gottfridsson í hóp ansi frambærilegra handboltamanna. Frakkinn Nikola Karabatic var valinn bestur árin 2008 og 2014 og Króatinn Ivano Balic árin 2004 og 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert