Færeyingar komu til baka og náðu í stig

Elías Ellefsen á Skipagötu og Teis Horn Rasmussen voru markahæstir …
Elías Ellefsen á Skipagötu og Teis Horn Rasmussen voru markahæstir Færeyinga. Ljósmynd/Eurohandball

Færeyingar komu til baka gegn frændum sínum Norðmönnum í D-riðli Evrópumóts karla í handbolta í München en leiknum lauk rétt í þessu. Lokatölur 26:26 þar sem Færeyingar skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins.

Norðmenn misstu boltann klaufalega þegar örfáar sekúndur lifðu leiks og brutu svo á Færeyingum sem fengu vítakast. Elías Ellefsen á Skipagötu skoraði úr því af öryggi, og tryggði Færeyingum óvænt stig

Norðmenn leiddu allan leikinn og hálfleiksstaðan var 13:12 Norðmönnum í vil. Færeyingar náðu að jafna metin tvívegis í stöðunni 17:17 og 22:22 áður en þeir komu til baka á lokasprettinum en síðasta mínútan var æsileg.

Alexandre Christoffersen Blonz var markahæstur Norðmanna með 8 mörk en Elias Ellefsen á Skipagötu og Teis Horn Rasmussen skoruðu fimm fyrir Færeyinga. Elías átti auk þess 10 stoðsendingar og var allt í öllu í leik færeyska liðsins. Hann var valinn maður leiksins í leikslok.

Torbjörn Bergerud varði 14 skot í norska markinu. Nicholas Satchwell markvörður KA varði 7 skot í því færeyska og Pauli Jacobsen varði 4.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert