Þórir ósáttur við skærustu stjörnu Noregs

Þórir Hergeirsson ræðir við Noru Mørk.
Þórir Hergeirsson ræðir við Noru Mørk. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, er ekki sáttur við að Nora Mørk, ein besta handknattleikskona Noregs frá upphafi, sé sérfræðingur hjá norska ríkissjónvarpinu á meðan á Evrópumótinu stendur.

Mørk verður sérfræðingur á meðan á mótinu stendur ásamt Stine Oftedal en þær hafa unnið ófá gullverðlaunin saman undir stjórn Þóris. Oftedal er hætt og Mørk er ófrísk og verður ekki með á EM.

„Það er flott að Stine verði sérfræðingur. Hún veit mikið og hefur reynsluna. Hún er líka hætt að spila,“ sagði Þórir á blaðamannafundi í dag. Hann er ekki eins sáttur við að Mørk sé í sama hlutverki, þar sem hún hefur ekki lagt skóna á hilluna.

„Ég er ekki hrifinn af því. Ég hef verið harður á því í mörg ár að leikmenn sem eru enn þá í landsliðinu eigi ekki að vera sérfræðingar einn mánuðinn og svo leikmenn þann næsta,“ sagði Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert