Rut Arnfjörð Jónsdóttir, einn reyndasti leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik, tekur þátt á sínu fjórða stórmóti og þriðja Evrópumóti þegar EM 2024 hefst með leik Íslands gegn Hollandi í F-riðli á morgun.
„Tilfinningin er rosalega góð. Mér líður mjög vel og það er gaman að taka þátt í þessu. Ef þú hefðir spurt mig fyrir ári síðan hefði ég kannski ekki búist við því að vera hérna í dag þannig að þetta er extra sætt og ég ætla bara að reyna að njóta,“ sagði Rut í samtali við mbl.is í Innsbruck í Austurríki, þar sem F-riðillinn verður leikinn.
Hún var ekki með á HM 2023 á síðasta ári þar sem hún eignaðist sitt annað barn örstuttu áður en mótið hófst.
„Já, ég eignaðist barnið mitt rétt á undan, 18. nóvember. Ég man ekki hvenær þær byrjuðu að spila en það var einhvern tímann í lok mánaðar. Ég lá með nýfætt barn að horfa á þær og það var eiginlega bara dásamlegt. Það var gaman, ég elska náttúrulega að horfa á handbolta.
Maður liggur mikið fyrstu vikurnar þegar barnið er lítið og maður er mikið heima þannig að þetta var rosalega skemmtilegur tími,“ sagði Rut, sem tók síðast þátt á stórmóti fyrir tólf árum á EM 2012 en hún er 34 ára gömul.
Rut hefur spilað á bæði Evrópu- og heimsmeistaramótum. Spurð hver munurinn sé á mótunum tveimur sagði hún:
„Það eru einhvern veginn öll lið sterk á EM. Það eru auðvitað ekki þessir leikir við lið sem koma frá öðrum heimsálfum og eru ekki jafn sterk. Það eru einhvern veginn öll lið sterk í Evrópu. Það gerir það að verkum að allir leikir eru rosalega erfiðir.
Það koma ekki einn og einn leikur þar sem maður veit fyrir fram að sum lið eru ekki eins sterk. En þetta er bara krefjandi verkefni og það er gaman að bera sig saman við þær allra bestu.“
Hægri skyttan er full tilhlökkunar fyrir því að hefja leik gegn Hollandi á Evrópumótinu á morgun.
„Mér finnst gaman fyrir þessar ungur stelpur sem eru í rauninni að stíga sín fyrstu skref, þær eru mjög ungar og eiga mikið eftir í boltanum, að fá að miða sig við þessar allra bestu. Ég er mjög spennt fyrir þessu,“ sagði Rut einnig.