„Ég er ótrúlega svekkt og súr,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir naumt tap gegn Hollandi, 27:25, í fyrsta leik á lokamóti EM í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
Holland er eitt besta lið heims og sterkt að vera í hörkuleik gegn eins sterku liði.
„Það er stórt að við séum svona svekktar eftir tap á móti Hollandi. Þetta er fimmta besta lið í heimi og það er gott að við séum brjálaðar núna. Maður er helvíti tapsár því við vildum vinna þennan leik. Mér leið eins og við myndum vinna þær.
Þær voru með færri tapaða bolta þegar það leið á seinni hálfleikinn. Svona reynslumikið lið refsar fyrir hvern einasta tapaðan bolta. Það var munurinn í seinni hálfleik,“ sagði Perla.
Hún var eðlilega ánægð með spilamennskuna, gegn gríðarlega sterkum andstæðingi.
„Við hugsuðum fyrir fram að þetta yrði erfiðasti leikurinn. Maður er ekki búinn að tapa neinu fyrir fram. Við mættum í þennan leik til að vinna hann og við sýndum þeim hörkuleik. Það var það næstbesta sem við gátum gert.
„Þessi leikur sýnir okkar framfarir og við tökum þetta með í leikinn við Úkraínu. Við ætlum okkur sigur á þessu móti,“ sagði Perla en Ísland leikur við Úkraínu á sunnudag.