Stórsigur Þýskalands í Íslandsriðlinum

Ólympíuhöllin í Innsbruck, þar sem riðill Íslands fer fram.
Ólympíuhöllin í Innsbruck, þar sem riðill Íslands fer fram. Ljósmynd/Jon Forberg

Þjóðverjar voru ekki í vandræðum með Úkraínu í seinni leik kvöldsins í riðli Íslands á Evrópumóti kvenna í handknattleik í Innsbruck í kvöld.

Þýska liðið vann leikinn 30:17 eftir að staðan var 15:9 í hálfleik og úkraínska liðið átti aldrei möguleika.

Alina Grijseels skoraði sex mörk fyrir Þýskaland, Lisa Antl fimm, Nina Engel og Julia Maidhof fjögur mörk hvor.

Liliia Horilska var markahæst hjá Úkraínu með fjögur mörk en Tamar Smbatian, Iryna Kompaniiets og Valeriia Nesterenko skoruðu þrjú mörk hver.

Ísland mætir Úkraínu í annarri umferð riðlakeppninnar í Innsbruck á sunnudagskvöldið og svo Þýskalandi í lokaumferðinni á þriðjudagskvöldið.

Þýskaland og Holland eru með 2 stig hvor þjóð eftir fyrstu umferðina í F-riðli en Ísland og Úkraína eru án stiga. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil keppninnar.

Svartfjallaland vann Serbíu 24:18 í B-riðli en þar vann Rúmenía sigur á Tékklandi, 29:28, fyrr í dag.

Danmörk vann Króatíu 34:26 í D-riðli en þar vann Sviss nauman sigur á Færeyjum, 28:25, fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert