„Tilfinningin er svolítið súrsæt því mér finnst við alveg eiga að geta staðið betur í þeim,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður Íslands og maður leiksins í 27:25-tapi fyrir Hollandi í fyrstu umferð EM 2024 í handknattleik í Innsbruck í kvöld.
„Mér fannst við alveg eiga að geta tekið stig út úr þessum leik, sem er þetta súra. En á sama tíma að finna að við séum svona nálægt þessum liðum gefur okkur svo ótrúlega mikinn styrk og trú og vonandi líka fólkinu heima og öllum öðrum.
Að finna að við séum þar sem við viljum vera og erum á uppleið. Við erum að vinna okkur þangað sem Holland og fleiri topplið eru,“ sagði Elín Jóna í samtali við mbl.is eftir leik.
Hvað vantaði upp á til þess að tryggja sér sigur?
„Það er erfitt að leikgreina það akkúrat núna en ég held að þær hafi mögulega átt aðeins meira eftir á tankinum þegar leið á leikinn, eða allavega síðustu mínúturnar. Það kom smá stopp á mörkunum hjá okkur þegar þær svo gáfu í.
Ég held að þar hafi þetta aðeins tapast en á sama tíma, þegar þessi kafli er svona stuttur og við getum fengið hann til að vera enn styttri, þá erum við bara á mjög flottum og góðum stað,“ sagði hún.
Elín Jóna varði 15 skot í leiknum og var með 37 prósent markvörslu. Hún kvaðst ánægð með eigin frammistöðu en hrósaði íslensku vörninni í hástert enda héldist þetta tvennt ávallt í hendur.
„Já, algjörlega en á sama tíma er ég mjög ánægð með vörnina okkar. Við vorum búin að tala um það fyrir fram hvar við vildum fá skotin.
Stelpurnar voru ótrúlega duglegar að minna hverja aðra á það og við vorum að gera það sem við vorum búnar að ákveða að gera. Þegar við gerum það þá gerir það mína vinnu miklu auðveldari,“ sagði Elín Jóna.
Hún sagði frammistöðuna vera gott veganesti fyrir framhaldið á mótinu en liðið mætir Úkraínu í annarri umferð strax á sunnudag.
„Algjörlega.Við þurfum bara að fara á hótelið, ná endurheimt og gera okkur tilbúnar fyrir næsta leik eftir tvo daga. Þá gefum við aftur allt í þetta,“ sagði Elín Jóna að endingu.