Þórir: Norðmenn orðnir svolítið dekraðir

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP/Eva Manhart

Þórir Hergeirsson, þjálfari ólympíu- og Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna, stýrir liðinu á sínu síðasta stórmóti á EM 2024 í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss áður en hann lætur af störfum um áramótin.

„Það er bara eins og það hefur verið á hverju ári síðan 2009 þegar ég varð aðalþjálfari. Maður svona grefur sig í þetta. Þetta er einn dagur í einu og maður lætur hverjum degi nægja sína þjáningu.

Maður lifir í núinu og undirbýr sig vel og fagmannlega fyrir næsta leik, nálgast þetta af auðmýkt. Gerir svo góða eftirvinnu og undirbýr næsta leik,“ sagði Þórir um síðasta stórmótið með Noregi í samtali við mbl.is á hóteli norska hópsins í Innsbruck í Austurríki á mánudag.

„Þetta er eiginlega bara þannig. Svo er þetta eins og þetta er í þessum bransa, þetta er eins og pendúll. Maður sveiflast á milli þess að njóta og vera í einhverri svona þjáningu. Þetta er svolítið svoleiðis í þessu.

Inni á milli er mikil þjáning að bera ábyrgð á þessu og svo er nautn inni á milli, að njóta. Þetta er svolítið fram og til baka,“ hélt hann áfram.

Væntingar um að við vinnum allt

Undir stjórn Þóris hefur norska liðið átt ótrúlegri velgengni að fagna. Evrópumeistaratitlarnir eru orðnir fimm og gætu orðið sex, heimsmeistaratitlarnir eru þrír og tvisvar varð Noregur ólympíumeistari undir handleiðslu hans.

Finnurðu fyrir aukinni pressu að vinna EM í ár þar sem þetta er síðasta stórmótið þitt?

„Nei, hún er ekki meiri núna en annars. Það eru alltaf væntingar um að við spilum um verðlaun, það eru væntingar um að við vinnum allt.

Það sem sýnir þetta núna er að við erum búin að missa fjóra leikmenn sem eru í topp alþjóðlegum klassa  og eiga í kringum 800 landsleiki samanlagt. Samt eigum við bara að vinna þetta,“ sagði Þórir.

Vísaði hann þar til Stine Oftedal, sem hætti eftir ólympíumeistaratitilinn í sumar, Noru Mörk og Veronicu Kristiansen, sem eru báðar barnshafandi, og Vilde Ingstad sem er með slitið krossband í hné.

Mikið af olíu og miklir peningar

„Við erum búin að vera með fimm æfingar síðan í október, fimm almennilegar handboltaæfingar, maður telur ekki 55 mínútur sem handboltaæfingu. Síðan eigum við bara að setja saman lið og vinna þetta. Þetta er svolítið svoleiðis.

Norðmenn eru orðnir svolítið dekraðir, mikið af olíu, miklir peningar og svo höfum við unnið mikið. Þá kemur þetta náttúrlega alltaf, mikill vill meira. En mér finnst metnaður hjá liðinu og okkur í þjálfarateyminu. Mér finnst vera auðmýkt og raunsæi í liðinu.

Við getum komist alla leið ef allt gengur upp og við getum líka dottið út og endað fyrir utan þessa úrslitahelgi,“ bætti Þórir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka