Danski íþróttablaðamaðurinn Kristian Schlüter er orðinn ansi þreyttur á að horfa á kvennalið þjóðarinnar í handbolta tapa fyrir Þóri Hergeirssyni og norska liðinu.
Noregur hafði betur, 27:24, gegn Danmörku í milliriðli á EM í gær. Í síðustu átta leikjum þjóðanna er Noregur með sjö sigra og einu sinni hafa liðin gert jafntefli.
„Bévítans Noregur! Getið þið ekki haldið ykkur við skíðin? Það er ótrúlega þreytandi að tapa fyrir ykkur. Við héldum besta leikmanninum ykkar niðri en samt unnuð þið,“ skrifaði Schlüter fyrir BT.
„Þetta er orðin einhvers konar martröð. Við töpum alltaf fyrir Noregi,“ bætti hann við.