Búið að ganga frá kaupum Eggerts á West Ham

Liðsmenn West Ham fagna marki í sigurleik gegn Arsenal á …
Liðsmenn West Ham fagna marki í sigurleik gegn Arsenal á dögunum. Reuters

Breska ríkisútvarpið BBC skýrði frá því í morgun að búið væri að ganga frá kaupum Eggerts Magnússonar og fleiri íslenskra fjárfesta á enska úrvalsdeildarliðinu West Ham. Að sögn BBC var kaupverðið 85 milljónir punda, jafnvirði 11,4 milljarða króna, og að auki yfirtaka kaupendur væntanlega 22,5 milljóna punda skuldir félagsins en þær jafngilda rúmum 3 milljörðum króna. Kaupendur skuldbinda sig jafnframt til að kaupa nýja leikmenn fyrir ótiltekna upphæð.

Nánar verður greint frá kaupum Íslendinganna á West Ham á blaðamannafundi, sem haldinn verður síðar í dag á Upton Park, heimavelli liðsins, í úthverfi Lundúna.

Að sögn BBC hefur stjórn West Ham samþykkt tilboð Eggerts í 83% af hlutafé félagsins og mun mæla með því við aðra hluthafa að þeir taki tilboðinu. Eggert mun taka við stjórnarformennsku í félaginu af Terry Brown en Brown mun áfram starfa fyrir West Ham.

BBC hefur eftir Eggert, að hann telji það heiður að Terry Brown og félagar hans vilji styðja tilboð Íslendinganna í West Ham. „Nú er óvissutímabilinu lokið og við munum stuðla að frekari þróun þessa frábæra félags og Alan Pardew mun stýra liðinu á vellinum. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð, sem ég mun axla með því að verða stjórnarformaður West Ham og ég heiti starfsfólki, leikmönnum og stuðningsmönnum, að ég er kominn hingað til að þjóna þeim og gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að félagið nái árangri."

Þá sagði Eggert, að hann muni íhuga að flytja heimavöll félagsins frá Upton Park til ólympíuleikvangsins í Lundúnum.

„Við erum að kaupa það sem við sjáum, West Ham á Upton Park. En ef tækifæri gefst til að ræða flutning félagsins til langframa á ólympíuleikvanginn þá mun ég kanna það.

BBC hefur eftir Brown, að tilboð Íslendinganna endurspegli verðgildi félagsins í ljósi sögu þess, árangurs að undanförnu og væntinga. „Eggert Magnússon hefur fullan hug á að tryggja að félagið nái áfram árangri bæði á knattspyrnuvellinum og utan hans til hagsbóta fyrir stuðningsmenn og samfélagið."

Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, stendur á bak við tilboð Eggerts í West Ham. Að sögn BBC verður Björgólfur skipaður heiðursformaður West Ham en Brown verður heiðursvaraformaður.

BBC segir, að Eggert hafi þegar rætt við Alan Pardew, knattspyrnustjóra, og fullvissað hann um að hann njóti stuðnings nýrra eigenda. Þá muni félagið fá fjármagn til að kaupa nýja leikmenn þegar félagaskiptaglugginn opnast á ný í janúar.

West Ham hefur ekki gengið sem best á þessu keppnistímabili. Liðið er fallið bæði út úr Evrópubikarkeppninni og ensku bikarkeppninni og er í fimmta neðsta sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is