Bellamy lamdi Riise með golkylfu

Craig Bellamy.
Craig Bellamy. Reuters

Norski landsliðsmaðurinn John Arne Riise leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool er helsta fréttaefni norskra og enskra fjölmiðla í kvöld en enskir fjölmiðlar greina frá því að Craig Bellamy félagi hans hjá Liverpool hafi lamið hann með golfkylfu í æfingabúðum liðsins í Portúgal.

Samkvæmt frétt dagblaðsins Record í Portúgal voru leikmenn Liverpool úti að skemmta sér og hafði Riise farið á undan félögum sínum upp á hótelherbergi. Bellamy átti eitthvað vantalað við norska leikmanninn er Bellamy kom á hótelið og braust hann inn í herbergi Riise og lamdi hann með golfkylfu. Record greinir einnig frá því að fleiri leikmenn Liverpool hafi lent í vandræðum í Portúgal vegna slagsmála og þar voru Jerzy Dudek, Robbie Fowler og Jermaine Pennant fremstir í flokki samkvæmt frétt Record.

Norskir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að norskt fyrirtæki í eigu Riise dragi langan skuldahala á eftir sér í Noregi þrátt fyrir tæplega 300 millj. kr. árslaun Riise hjá Liverpool. Einkahlutafélagið Riise Invest AS sem er í eigu Riise hefur ekki skilað inn ársreikningum fyrir árið 2005 þrátt fyrir að fimm mánuðir séu liðnir frá því að fresturinn rann út. Heildaskuldir einkahlutafélags Riise eru um 180 millj. kr.

John Arne Riise.
John Arne Riise. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina