AZ Alkmaar sló Newcastle út

Grétar Rafn Steinsson sækir að Damien Duff í leik AZ ...
Grétar Rafn Steinsson sækir að Damien Duff í leik AZ Alkmaar og Newcastle í kvöld. AP
Grétar Rafn Steinsson og félagar hans í hollenska liðinu AZ Alkmaar slógu í kvöld lið Newcastle út úr UEFA-keppninni. AZ Alkmaar hrósaði 2:0 sigri í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum sem fram fór í Hollandi og það dugði liðinu til að komast áfram á útimarkareglunni en Newcastle hafði betur í fyrri leiknum, 4:2.

Shota Arveladze skoraði fyrra mark heimamanna á 14. mínútu og Danny Koevermans skoraði markið sem réð úrslitum þegar hann bætti við öðru marki á 55. mínútu.

Grétar Rafn lék allan tímann í stöðu hægri bakvarðar en Grétar skoraði sjálfmark í fyrri leik liðanna á St.James Park.

Sevilla, sem á titil að verja, slapp með skrekkinn gegn Shakhtar Donetsk. Sevilla hafði betur í framlengdum leik, 2:3, en staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma eða sama staða og varð í fyrri leiknum á Spáni. Markvörður Sevilla Andres Palop skoraði með skalla á 90. mínútu og tryggði liði sínu framlengingu og í henni skoraði Úrúgvæinn Ernesto Chevanton sigurmarkið.

mbl.is