Viðræður West Ham og Barcelona um kaup á Eiði sagðar hafnar

Eiður Smári Guðjohnsen er nú sterklega orðaður við West Ham.
Eiður Smári Guðjohnsen er nú sterklega orðaður við West Ham. Reuters

Nokkur ensk blöð, til að mynda Guardian og Independent, segja frá því í morgun að viðræður séu hafnar um kaup West Ham á Eiði Smára Guðjohnsen frá Barcelona. Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs og umboðsmaður, sagði í viðtali við Sky fréttastofuna í gær að Eiður væri opinn fyrir því að ganga til liðs við Íslendingaliðið.

Að sögn Guardian hófust samningaviðræður á milli West Ham og Barcelona í gær en Alan Curbishley telur Eið Smára kjörinn til að leysa Argentínumanninn Carlos Tevez af hólmi en að öllu óbreyttu fer Tevez til Manchester United.

Guardian hefur heimildir fyrir því að West Ham sé reiðubúið að greiða Eiði Smára 65,000 pund í vikulaun sem jafngildir 8,1 milljón íslenskra króna. Barcelona keypti Eið Smára frá Chelsea fyrir 8 milljónir punda síðastliðið sumar og verði af kaupum West Ham á íslenska landsliðsfyrirliðanum er reiknað með að West Ham verði að punga út 9 til 10 milljónum punda, 1,1 til 1,3 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert