Pálmi Haraldsson: „Ég er ekki að kaupa Newcastle"

Nicky Butt hjá Newcastle United í sveiflu.
Nicky Butt hjá Newcastle United í sveiflu. Reuters

Pálmi Haraldsson kaupsýslumaður staðfesti í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann stæði ekki í viðræðum um kaup á Newcastle United. „Ég get ekki sagt annað en það að ég er ekki að kaupa Newcastle," sagði Pálmi sem sagðist hafa staðið í ströngu við að svara símtölum frá breskum fréttamönnum sem voru aðgangsharðir.

„Ég er ekki að kaupa Newcastle og ég vil ekki fara neitt dýpra ofan í það, það er ekkert meira í gangi," sagði Pálmi og varðist allra fregna um viðræður í tengslum við kaupin á fótboltaliðinu.

Áhangendur liðsins munu hafa verið mótfallnir sölunni en Pálmi vildi ekkert segja um þá hlið málsins.

En hefur hann hug á að kaupa önnur fótboltalið? „Ég hef alltaf áhuga á Þrótti," sagði Pálmi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina