Chelsea búið að semja við Belletti

Juliano Belletti er kominn til Chelsea.
Juliano Belletti er kominn til Chelsea. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Chelsea gekk síðdegis endanlega frá samningum við Juliano Belletti, brasilíska bakvörðinn, og kaupir hann af Barcelona fyrir ótilgreinda upphæð. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Lundúnaliðið eftir að hafa gengist undir læknisskoðun fyrr í dag.

Belletti er 31 árs og hefur leikið með Barcelona undanfarin þrjú ár, kom þá til félagsins frá Villarreal, en átti ekki fast sæti í liðinu síðasta vetur eftir að Gianluca Zambrotta kom til félagsins og spilaði aðeins 13 leiki. Belletti skoraði sigurmark Barcelona þegar liðið sigraði Arsenal í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta ári.

„Þetta var mjög óvænt og kom ekki upp fyrr en í gær. Við náðum samkomulagi, félögin líka án vandræða, og allir eru ánægðir," sagði Belletti á vef Chelsea í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert