Benítez: Torres er óstöðvandi

Fernando Torres fagnar marki númer tvö ásamt varnarmanninum Martin Skrtel.
Fernando Torres fagnar marki númer tvö ásamt varnarmanninum Martin Skrtel. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar þeir gjörsigruðu West Ham, 4:0, í ensku úrvalsdeildinni.

Sérstaklega með Fernando Torres sem gerði sína aðra þrennu á árinu  en hann skoraði þrjú fyrstu mörkin áður en Steven Gerrard rak smiðshöggið á verkið með miklum þrumufleyg.

„Torres er í frábæru formi og nánast óstöðvandi. Það er komið mikið sjálfstraust í liðið og við erum sannfærðir um að við munum skora mörk í leikjum okkar. Nú er það í okkar höndum að tryggja okkur sæti í Meistaradeildinni á ný. Við þurfum að halda okkar striki á heimavelli gegn Newcastle á laugardaginn, svo við getum farið fullir sjálfstrausts í leikinn við Inter Mílanó í næstu viku," sagði Benítez við fréttamenn eftir leikinn í kvöld.

„Það er mjög jákvætt að við skulum  vera að hrökkva í gang á réttum tíma á tímabilinu. Við spiluðum sem sterk liðsheild og vinnum allir saman, það gerir gæfu muninn þessa dagana," sagði Benítez, sem hafði áhyggjur af því að Torres gæti ekki spilað í kvöld vegna magakveisu.

„Það var áhyggjuefni, en hann var staðráðinn í að spila, og sýndi svo ekki varð um villst að það var allt í lagi með hann. Ég ætlaði að fara að kippa honum af velli þegar hann skoraði þriðja markið. Kannski sá hann að Peter Crouch var að hita upp og vissi að hann ætti aðeins eftir að vera inná í nokkrar mínútur," sagði Benítez.

Alan Curbishley horfði uppá lið West Ham tapa 4:0 annan leikinn í röð en lið hans lá með sömu markatölu gegn Chelsea á laugardaginn.

„Við eigum tvo erfiða leiki að baki og höfðum ekkert að segja í þessi tvö lið. Ég átti von á því að þetta yrði erfitt en ekki svona. En þetta er í fyrsta skipti í vetur sem við dettum svona niður í tveimur leikjum í röð og við verðum að leiðrétta það þegar við mætum Tottenham á sunnudaginn," sagði Curbishley.

mbl.is

Bloggað um fréttina