Mamma segir að Ronaldo fari hvergi

Cristiano Ronaldo verður kyrr hjá Manchester United, segir móðir hans.
Cristiano Ronaldo verður kyrr hjá Manchester United, segir móðir hans. Reuters

Dolores Aveiro, móðir portúgalska knattspyrnusnillingsins Cristianos Ronaldos, segir að það sé alveg á hreinu að sonur sinn sé ekki á förum til Real Madrid og hann muni leika áfram með Englands- og Evrópumeisturum Manchester United.

Dolores hefur áður lýst því yfir að það sé draumur sinn að sjá soninn spila með Real Madrid en það kvað við annan tón í dag þegar hún ræddi við portúgölsku sjónvarpsstöðina TVI.

„Honum líður vel þar sem hann er. Guð einn veit hvað framtíðin býr í skauti sér en það er alveg á hreinu að hann verður áfram í Englandi," sagði Dolores Aveiro, og víst er að nú taka stuðningsmenn Manchester United víðsvegar um heim gleði sína á ný.

Ronaldo hefur þráfaldlega verið orðaður við Real Madrid að undanförnu og kynti undir þann orðróm sjálfur með því að segja í gær að það væri spennandi kostur að spila með spænsku meisturunum.

mbl.is