Zico næstur í röðinni hjá Chelsea

Zico, til hægri, hefur gætur á Diego Maradona í góðgerðaleik …
Zico, til hægri, hefur gætur á Diego Maradona í góðgerðaleik í vor. Reuters

Zico, brasilíska knattspyrnuhetjan frá níunda áratug síðustu aldar, er nú talinn líklegastur til að taka við stöðu knattspyrnustjóra enska félagsins Chelsea, að því er fram kemur hjá Sky Sports í dag.

Zico er hættur störfum hjá Fenerbache í Tyrklandi eftir að viðræður um nýjan samning fóru út um þúfur en forráðamenn félagsins staðfestu það í dag.

Zico hefur stýrt Fenerbache undanfarin tvö ár og liðið komst óvænt í átta liða úrslitin í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili en féll þar gegn Chelsea.

Zico er 55 ára gamall og skoraði 66 mörk í 88 landsleikjum fyrir Brasilíu á árunum 1976 til 1988. Honum var oft líkt við sjálfan landa sinn, Pelé, sem sjálfur hefur látið hafa eftir sér að Zico sé sá knattspyrnumaður í sögunni sem næst hafi komist því að vera jafn góður og hann sjálfur!

Arthur Antunes Coimbra, eins og hann heitir réttu nafni, stýrði Kashima Antlers í Japan um skeið og síðan japanska landsliðinu 2002 til 2006 en fór þaðan til Fenerbache.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert