Benítez kennir Spánverjum um meiðsli Torres

Fernando Torres er veikur fyrir í læri og meiðist aftur ...
Fernando Torres er veikur fyrir í læri og meiðist aftur og aftur á sama hátt. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að landar sínir hjá spænska landsliðinu meðhöndli ekki Fernando Torres rétt. Það sé ekki einleikið að togni enn og aftur í læri á meðan eða eftir að hann hafi verið við æfingar og keppni með landsliði Spánar.

Torres tognaði í læri í fimmta skipti á 16 mánuðum síðasta miðvikudag og verður frá keppni næstu 2-3 vikurnar í það minnsta. Það gerðist reyndar í leik með Liverpool gegn Marseille í Meistaradeild Evrópu en Benítez telur að ástæðuna sé að finna í þjálfunaraðferðum spænska landsliðsins.

„Hann hefur meiðst þrisvar á meðan hann hefur verið með landsliðinu og við verðum að skoða þetta nánar. Við vitum að þeir gera eitthvað sem hentar honum illa. Sjálfir höfum við unnið mikið í forvarnaraðgerðum gagnvart svona meiðslum en það hefur ekki dugað. Við ætlum að komast til botns í þessu og munum ekki taka neina áhættu. Hann spilar ef hann er heill, annars ekki," sagði Benítez við fréttamenn í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina