Liverpool besta lið Evrópu samkvæmt lista UEFA

Úr leik Liverpool og Real Madrid í fyrri leik liðanna ...
Úr leik Liverpool og Real Madrid í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar. Reuters

Samkvæmt Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, er Liverpool besta lið Evrópu, sé horft til úrslita liðsins síðastliðin fimm ár í Evrópukeppnum á vegum sambandsins. Lið Chelsea er í öðru sæti, en Evrópumeistarar Manchester United eru í sjöunda sæti.

Er þetta í fyrsta skipti síðan 1985 að Liverpool er efst á listanum, en sigur liðsins yfir Real Madrid á dögunum fleytti þeim í fyrsta sætið.

Fyrir sigur fær hvert lið þrjú stig á heimavelli, en fjögur fyrir sigur á útivelli. Eitt stig fæst fyrir jafntefli á heimavelli en tvö fyrir jafntefli á útivelli. Við tap á heimavelli dregst eitt stig frá, en ekkert stig fæst fyrir tap á útivelli. Þá eru einnig gefin mismunandi mörg stig fyrir að taka þátt í Meistaradeildinni eða UEFA-bikarnum.

Listinn hefur verið gagnrýndur af þjálfurum, sem segja hann marklausan, enda sé það endanlegur árangur liða í keppninni sjálfri sem hljóti að segja til um hvaða lið sé best.

Má að vissu leyti sammælast þeirri gagnrýni, því fáir myndu taka undir þá fullyrðingu sem kemur fram á listanum, að Sevilla frá Spáni hafi undanfarin fimm ár verið með betra lið en Manchester United.

Annars lítur listinn svona út:

Stig liðanna eru gefin upp í sviga.

1 - Liverpool FC (114.077)
2 - Chelsea FC (110.077)
3 - Barcelona (109.403)
4 - AC Milan (109.306)
5 - Arsenal FC (101.077)
6 – Sevilla FC (100.403)
7 - Manchester Utd FC (99.077)
8 - Bayern Munich (93.664)
9 – Olympique Lyonnais (90.576)
10 - Inter Milan (87.306)

mbl.is

Bloggað um fréttina