Liverpool fagnaði stórsigri á Old Trafford

Torres stelur boltanum af Nemanja Vidic og augnabliki síðar lá ...
Torres stelur boltanum af Nemanja Vidic og augnabliki síðar lá boltinn í netinu hjá United. reuters

Liverpool gerði sér lítið fyrir og sigraði Englandsmeistara Manchester United, 4:1, en liðin áttust við á Old Trafford. Cristiano Ronaldo kom United yfir en Fernando Torres, Steven Gerrard, Fabio Aurelio og Andrea Dossana svöruðu fyrir Liverpool, sem er nú fjórum stigum á eftir United.

Vendipunktur leiksins var á 70. mínútu. Þá var dæmd aukaspyrna á Nemanja Vidic fyrir að toga Steven Gerrard niður sem var að sleppa einn í gegn. Vidic var í kjölfarið rekinn af velli og úr aukaspyrnunni skoraði Fabio Aurelio og kom Liverpool í 3:1. Varamaðurinn Dossena stráði svo enn meira salti í sár meistaranna þegar hann skoraði  fjórða markið undir lok leiksins.

Bein textalýsing frá leiknum er hér að neðan.

88. MARK!! Andrea Dossena er að innsigla stórsigur en eftir langt útspark Reina vippaði Dossena boltanum yfir Van der Sar og í netið.

Englandsmeistararar Manchester United og Liverpool hófu leik í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford klukkan 12.45. Þetta er einn af stórleikjum tímabilsins sem ræður miklu um framhaldið í deildinni en fyrir leiki dagsins er United með sjö stiga forskot í toppsætinu. Fylgst verður með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.

75. MARK!! Fabio Aurelio kemur Liverpool í 3:1 úr aukaspyrnunni sem dæmd var á Vidic. Það stefnir allt í sigur Liverpool.

74. Rautt spjald!! Nemanja Vidic er rekinn af velli fyrir að toga Steven Gerrard niður sem var að komast í gegn.

72. United gerir þrefalda skiptingu. Inná koma reynsluboltarnir Giggs og Scholes ásamt Berbatov en útaf fara Anderson, Park og Carrick. Liverpool framkvæmdi skiptingu nokkrum mínútum áður. Andrea Dossena kom inná fyrir Albert Riera.

63. United gerir harða hríð að marki Liverpool og minnstu munaði að Rooney tækist að skora en boltinn lak framjhá markinu. Tveir leikmenn Liverpool hafa fengið gul spjöld á síðustu mínútum, Mascherano og Skrtel.

53. Manchester United hefur byrjað síðari hálfleikinn vel og hefur boltinn verið inná vallarhelmingi Liverpool nær allan tímann í seinni hálfleik.

45. Alan Wiley hefur flautað til leikhlés þar sem Liverpool er yfir, 2:1, í frábærum fótboltaleik.

43. MARK!! Steven Gerrard hefur komið Liverpool í 2:1. Fyrirliðinn skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Patrice Evra fyrir að fella Gerrard innan vítateigs.

35. Baráttan er gríðarleg á Old Trafford og hraðinn mikill. Tveir leikmenn hafa fengið gula spjaldið. Fyrst Jamie Carragher hjá Liverpool og Rio Ferdinand fyrirliði United andartaki síðar.

28. MARK!! Fernando Torres hefur jafnað metin á Old Trafford. Nemanja Vidic gerði sig sekan um ljót mistök sem aftasti varnarmaður. Torres náði að stela af honum boltanum og skora af öryggi framhjá Van der Sar.

23. MARK!! Cristiano Ronaldo kemur United yfir með marki úr vítaspyrnu. Vítið var dæmt á Pepe Reina markvörð Liverpool þegar hann felldi Park í teignum eftir frábæra stungusendingu frá Evra.

10. Engin færi hafa litið dagsins ljós. United byrjaði betur en Liverpool hefur sótt í sig veðrið síðustu mínúturnar.

Liverpool þurfti að gera breytingu á byrjunarliðinu rétt fyrir leikinn. Alvaro Arbeloa meiddist í upphitun og er Sami Hyypia kallaður inn í liðið í hans stað. Hyypia fer í miðvarðarstöðuna og Jamie Carragher í stöðu hægri bakvarðar.

Lið Man Utd: Van der Sar, O'Shea, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Carrick, Anderson, Park, Rooney, Tevez. Varamenn: Foster, Berbatov, Giggs, Nani, Scholes, Evans, Fletcher.

Lið Liverpool: Reina, Hyypia, Carragher, Skrtel, Aurelio, Mascherano, Lucas, Kuyt, Riera, Gerrard, Torres. Varamenn: Cavalieri, Babel, El Zhar, Dossena, Insua, Ngog.

Steven Gerrard liggur í teignum eftir brot Patrice Evra.
Steven Gerrard liggur í teignum eftir brot Patrice Evra. Reuterse
Park Ji-sung og Jamie Carragher í baráttunni á Old Trafford.
Park Ji-sung og Jamie Carragher í baráttunni á Old Trafford. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina