Hull-menn standa á sínu gagnvart Fabregas

Leikur Arsenal og Hull virðist ætla að hafa nokkurn eftirmála.
Leikur Arsenal og Hull virðist ætla að hafa nokkurn eftirmála. Reuters

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull City, og Brian Horton, aðstoðarmaður hans, gefa lítið fyrir fullyrðingar Cesc Fabregas, fyrirliða Arsenal, sem neitar ásökunum um að hafa hrækt á Horton eftir leik liðanna í ensku bikarkeppninni í gærkvöld. Horton hefur fullan hug á að fara lengra með málið.

„Ég hef rætt við samtök knattspyrnustjóra og vil fara lengra með þetta," sagði Horton við BBC og Phil Brown lýsti yfir fullum  stuðningi við hann.

„Brian fær allan mögulegan stuðning hjá Hull, m.a. frá stjórnarformanni félagsins," sagði Brown við BBC.

Fabregas sagði í yfirlýsingu að hann hafnaði því alfarið að hafa hrækt á einhvern eftir leikinn. „Ég hef aldrei gert slíkt innan vallar á ferlinum og hvers vegna hefði ég þá átt að gera það þegar ég var ekki einu sinni með sjálfur? Ég skil vel svekkelsið yfir því að tapa leiknum á vafasömu marki, það hef ég sjálfur oft upplifað, en það var ekki mér að kenna eða leikmönnum Arsenal." Fabregas var ekki með, hann er að jafna sig af meiðslum og var borgaralega klæddur.

Brown var spurður í útvarpsþætti á BBC í dag hvort hann stæði við fullyrðingar sínar varðandi Fabregas. „Algjörlega, 100 prósent. Í fyrsta lagi fór hann inná völlinn eftir leikinn og hann hafði ekkert leyfi til þess. Í öðru lagi var klæðnaður hans ekki við hæfi. Í þriðja lagi sýna ljósmyndir dagblaðanna greinilega hvernig hann kom fram við leikmenn okkar og starfsfólk eftir leikinn. Síðan horfði ég á hann ganga í átt til búningsklefa, á leiðinni sneri hann sér við og hrækti á fætur aðstoðarmanns míns. Svívirðilegt athæfi," sagði Brown.

Hann hélt áfram og sendi Arsenal og Arsene Wenger tóninn. „Það sást vel hversu mjög við förum í taugarnar á aðalsmönnunum í Arsenal. Hann neitaði að taka í höndina á mér eftir að við unnum þá sanngjarnt 2:1 á Emirates, og hann gerði það ekki heldur eftir að þeir unnu okkur sanngjarnt, 3:1, á KC leikvanginum," sagði Phil Brown.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert