Gerrard með þrennu og eins stigs munur

Steven Gerrard og Dirk Kuyt fagna fyrsta markinu sem Kuyt ...
Steven Gerrard og Dirk Kuyt fagna fyrsta markinu sem Kuyt skoraði. Reuters

Liverpool burstaði Aston Villa, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í dag og er nú aðeins einu stigi á eftir Manchester United í baráttunni um enska meistaratitilinn. Steven Gerrard skoraði þrennu fyrir  Liverpool sem er nú komið með betri markatölu en Manchester United, sem hinsvegar á leik til góða.

Manchester United er með 65 stig, Liverpool 64 og Chelsea 61. Liverpool náði að nýta sér vel ósigra hinna tveggja í gær en United tapaði þá óvænt fyrir Fulham og Chelsea fyrir Tottenham. Aston  Villa er áfram í 5. sætinu með 52 stig.

Liverpool náði forystunni strax á 8. mínútu þegar Dirk Kuyt skoraði með föstu skoti rétt utan markteigs, 1:0.

Liverpool komst í 2:0 á 33. mínútu með einföldu marki. José Reina markvörður Liverpool þrumaði boltanum innfyrir vörn Villa þar sem Albert Riera tók hann viðstöðulaust í þverslána og inn!

Á 39. mínútu var brotið á Riera og dæmd vítaspyrna á Villa og úr henni skoraði Steven Gerrard af öryggi, 3:0.

Steven Gerrard var aftur á ferð á 50. mínútu þegar boltanum var rennt á hann úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs og hann skoraði með nákvæmu innanfótarskoti í markhornið hægra megin, 4:0.

Veislan hélt áfram á Anfield því á 65. mínútu fékk Brad Friedel rauða spjaldið fyrir að brjóta á Fernando Torres. Vítaspyrna og úr henni skoraði Steven Gerrard sitt þriðja mark, 5:0.

Liverpool:  Pepe Reina, Alvaro Arbeloa, Jamie Carragher, Martin Skrtel, Fabio Aurelio, Javier Mascherano, Xabi Alonso, Steven Gerrard, Dirk Kuyt, Albert Riera, Fernando Torres.

Aston Villa: Brad Friedel, Nigel Reo-Coker, Carlos Cuellar, Curtis Davies, Luke Young, James Milner, Stiliyan Petrov, Gareth Barry, Ashley Young, Emile Heskey, John Carew.

mbl.is

Bloggað um fréttina