Benítez: Við eigum meira inni

Steven Gerrard skoraði þrennu fyrir Liverpool og afgreiðir hér vítaspyrnu ...
Steven Gerrard skoraði þrennu fyrir Liverpool og afgreiðir hér vítaspyrnu af öryggi gegn Aston Villa. Reuters

Þrátt fyrir stórsigur á Aston Villa, 5:0, segir Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool að lið sitt eigi meira inni og geti gert betur. Það hafi ekki leikið sérstaklega vel þó úrslitin hafi orðið á þennan veg.

„Við skoruðum mörk en leikur okkar var ekki sérstaklega góður og við áttum þess oft kost í leiknum að gera betur í okkar leik. Ég er mjög ánægður með úrslitin því þau eru frábær en það er alltaf hægt að bæta," sagði Benítez við BBC.

Nú munar aðeins einu stigi á Manchester United og Liverpool í tveimur efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar en United á reyndar leik til góða. „Hvað titilinn varðar, þá verðum við að halda áfram að vinna okkar vinnu og velta okkur ekki uppúr því hvernig fer hjá United og hvernig þeir spila. Ef þeir gera mistök verðum við að vera til taks að nýta okkur þau, og það þýðir að halda okkar striki og vinna leiki.

Við eigum átta leiki eftir og verðum að vinna þá alla, og spila alla eins og bikarúrslitaleiki. Við þurfum að halda þessum takti í okkar leik og takist það, eykst sjálfstraustið jafnt og þétt. Nú er framundan hlé vegna landsleikja  og þá eiga okkar leikmenn eftir að fara og koma aftur," sagði Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina