Övrebo laumað úr landi í lögreglufylgd

Michael Ballack og Petr Cech húðskamma Tom Henning Övrebo.
Michael Ballack og Petr Cech húðskamma Tom Henning Övrebo. Reuters

Norska dómaranum Tom Henning Övrebo var laumað úr Bretlandi í lögreglufylgd í morgun en óttast var um öryggi hans eftir frammistöðu hans á Stamford Bridge þar sem hann dæmdi leik Chelsea og Barcelona í Meistaradeildinni í fótbolta.

Eftir leikinn gerðu leikmenn Chelsea aðsúg að Övrebo en þeir vildu meina að hann hefði rænt liðið nokkrum vítaspyrnum en Barcelona tókst á dramatískan hátt að komast í úrslitaleikinn eftir að Andres Iniesta jafnaði metin í 1:1 í uppbótartíma.

Lögreglan óttaðist hörð viðbrögð reiðra stuðningsmanna Chelsea og ákvað að láta Övrebo skipta um hótel að sögn Graham Poll, fyrrum alþjóðlegs dómara.

,,Það var tekin sú ákvörðun að lauma honum úr landi undir lögregluvernd. Þetta er dómari í fótboltaleik og ég lít á þessar aðgerðir sem mikla skömm,“ segir Poll.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem dómari í leik á milli þessara félaga verður fyrir aðkasti. Svíinn Andres Frisk dæmdi viðureign liðanna í Meistaradeildinni fyrir fjórum árum og eftir að hafa borist líflátshótanir ákvað Svíinn að leggja flautuna á hilluna. Frisk rak Didier Drogba útaf í fyrri rimmu liðanna og eftir seinni leikinn varð Jose Mourinho brjálaður þegar hann frétti af heimsókn Frank Rijkaards þjálfara Börsunga inn í dómaraklefann í hálfleik þar sem hann dvaldi drykklanga stund.

mbl.is

Bloggað um fréttina