Man.Utd stigi frá meistaratitlinum

Paul Scholes, Wayne Rooney og Dimitar Berbatov voru allir með ...
Paul Scholes, Wayne Rooney og Dimitar Berbatov voru allir með í kvöld. Reuters

Manchester United er einu stigi frá því að verða enskur meistari í knattspyrnu eftir sigur á Wigan, 2:1, á JJB-leikvanginum í Wigan í kvöld. United er með sex stiga forskot á Liverpool þegar tveimur umferðum er ólokið.

Wigan náði forystunni á 28. mínútu þegar Hugo Rodallega fékk sendingu inní vítateiginn, hafði betur í baráttu við Nemanja Vidic og þrumaði boltanum í netið, 1:0.

Carlos Tévez kom inná sem varamaður hjá Manchester United og var  fljótur að láta til sín taka. Hann jafnaði á 61. mínútu, 1:1, með því að sneiða boltann  viðstöðulaust í netið frá vítapunkti eftir að Michael Carrick átti fast skot í átt að marki af um 20 metra færi.

Michael Carrick kom síðan Manchester United yfir á 86. mínútu með föstu vinstrifótarskoti frá vítateig eftir sendingu frá John O'Shea, 2:1, og það reyndist sigurmarkið.

Manchester United mætir Arsenal á laugardaginn og nægir þar jafntefli við að hampa meistaratitlinum. Wigan siglir lygnan sjó í 11. sætinu með 42 stig og hefur misst af möguleikanum á að tryggja sér Evrópusæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina