Tévez vonsvikinn með viðbrögðin

Carlos Tévez í baráttu við fyrrum samherjann Darren Fletcher.
Carlos Tévez í baráttu við fyrrum samherjann Darren Fletcher. Reuters

Carlos Tévez, sóknarmaður Manchester City, kveðst hafa orðið hissa og vonsvikinn á þeim móttökum sem hann fékk hjá stuðningsmönnum Manchester United þegar félögin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Tévez lék með United í tvö ár og var afar vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins, en hann söðlaði síðan um í sumar og gekk til liðs við City. Þetta var því hans fyrsti leikur á gamla heimavellinum og þar var púað á hann nánast látlaust frá  fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Talið er að smápeningur sem kastaðvar í Javier Garrido, varamann City, í hálfleik þegar hann gekk til búningsherbergja hafi verið ætlaður Argentínumanninum smáa en knáa.

„Ég verð að viðurkenna að ég hélt að ég fengi öðruvísi viðtökur hjá stuðningsmönnum United. Þegar ég mætti á  völlinn var allt mjög jákvætt, fyrrum samherjar mínir tóku vel á móti mér, sem og starfslið United. Þar voru engin vandamál. En um leið og ég gekk inná völlinn gjörbreyttist andrúmsloftið. Það var erfitt því þetta var fólkið sem alltaf tók mér svo vel," sagði Tévez við blaðið Daily Mail í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina