Hólmar fyrirliði hjá West Ham

Hólmar Örn Eyjólfsson skorar fyrir 21-árs landsliðið gegn San Marínó.
Hólmar Örn Eyjólfsson skorar fyrir 21-árs landsliðið gegn San Marínó. mbl.is/Árni Sæberg

Hólmar Örn Eyjólfsson, hinn 19 ára gamli varnarmaður úr 21-árs landsliði Íslands í knattspyrnu, var fyrirliði varaliðs West Ham í gærkvöld þegar það vann góðan sigur á Stoke City, 5:2, í deildaleik í Englandi. Hólmar fékk talsvert lof fyrir frammistöðu sína.

Í umfjöllun um leikinn á vef West Ham er Hólmar talinn upp meðal þeirra sem þóttu standa sig vel. Í lýsingu á leiknum segir m.a. að vörn West Ham hafi verið traust og Hólmar hafi þar verið sérstaklega sterkur. Hann leiki virkilega vel og njóti þess greinilega að gegna embætti fyrirliða.

Hólmar var í haust lánaður til 3. deildarliðs Cheltenham og spilaði með því í einn mánuð en sneri síðan aftur til West Ham þar sem hann er í harðri baráttu um sæti í aðalliðshópi félagsins.

mbl.is