Ferguson óhress með uppbótartímann

Wayne Rooney og Stiliyan Petrov eigast við í leiknum á ...
Wayne Rooney og Stiliyan Petrov eigast við í leiknum á Old Trafford. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir ósigurinn gegn Aston Villa á Old Trafford í kvöld, 0:1, að það gengi ekki lengur að dómararnir sæu um að ákvarða lengd uppbótartímans.

„Leikurinn var tvisvar stoppaður í tvær mínútur en samt bætti dómarinn bara þremur mínútum við," sagði Ferguson en United mátti sætta sig við sinn fyrsta ósigur á heimavelli gegn Aston Villa í 26 ár.

„Við hefðum verðskuldað eitthvað í seinni hálfleiknum en í þeim fyrri verðskuldaði Villa líklega að vera yfir. Við sóttum hart á þá í seinni hálfleik, fengum mörg góð færi og héldum oft til í vítateignum þeirra. Með því að nýta eitt þeirra hefði leikurinn gjörbreyst," sagði Ferguson við fréttamenn, og hrósaði jafnframt liði Villa.

„Hver einn og einasti í þeirra liði gaf allt sem hann átti til að vinna hvern einasta bolta. Við lokuðum á þá, en þeir voru afar erfiðir viðureignar. Þessi deild er ekki auðveld og ég segi enn það sem ég hef áður sagt, að ef við verðum í námunda við toppinn um áramót eigum við stórgóða möguleika á titlinum," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina