Gylfi: Æfi aukaspyrnur daglega

Ívar Ingimarsson fyrirliði Reading fagnar Gylfa eftir mark hans gegn …
Ívar Ingimarsson fyrirliði Reading fagnar Gylfa eftir mark hans gegn Swansea á laugardaginn. www.readingfc.co.uk

Gylfi Þór Sigurðsson, sem skoraði fallegt mark fyrir Reading úr aukaspyrnu gegn Swansea í ensku 1. deildinni í knattspyrnu á laugardaginn, kveðst æfa aukaspyrnurnar daglega.

„Ég er vanur að æfa aukalega eftir hverja æfingu liðsins, stilli upp boltum og skýt á markið í 10 til 15 mínútur. Það var gott að ná að skora, ég hefði þó viljað skipta á markinu og því að vinna leikinn, en við hefðum getað unnið," sagði Gylfi á vef Reading, en leikurinn gegn Swansea endaði 1:1.

Gylfi og félagar fara í dag til Plymouth og mæta þar Kára Árnasyni og samherjum hans í 1. deildinni en bæði liðin eru á hættusvæði deildarinnar. Auk Gylfa voru bæði Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson í byrjunarliði Reading á laugardaginn, og Kári lék með Plymouth sem vann óvæntan útisigur á Cardiff, 1:0.

Öll Íslendingaliðin eru á ferðinni í 1. deildinni í dag og spila öll klukkan 15.

Heiðar Helguson leikur væntanlega sinn síðasta leik með Watford sem sækir Bristol City heim. Lánssamningur Watford og QPR rennur út um áramótin.

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Coventry eiga fyrir höndum erfiðan útileik gegn Nottingham Forest sem er á mikilli siglingu og er komið í þriðja sæti deildarinnar.

Emil Hallfreðsson og samherjar hans í Barnsley eiga heimaleik gegn Middlesbrough og mæta úthvíldir til leiks því viðureign Preston og Barnsley sem fram átti að fara á laugardaginn var frestað.

mbl.is