Hólmar beint í lið hjá Roeselare

Hólmar Örn í baráttu við sóknarmann Mechelen í leiknum í ...
Hólmar Örn í baráttu við sóknarmann Mechelen í leiknum í gærkvöld. www.ksvroeselare.be

Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörðurinn ungi sem West Ham lánaði á dögunum til Roeselare í Belgíu, fór beint í byrjunarlið félagsins sem tók á móti Mechelen í gærkvöld.

Roeselare beið lægri hlut í leiknum, 1:2, og fékk á sig úrslitamark undir lok leiksins. Hólmar lék allan tímann í stöðu miðvarðar en Bjarna Þór Viðarssyni var skipt af velli um miðjan síðari hálfleik.

Roeselare og Lokeren eru jöfn og neðst í deildinni en lið Moeskroen hefur þegar hætt keppni vegna gjaldþrots og verður eina liðið sem fellur beint úr deildinni þetta tímabilið.

Hólmar er 19 ára gamall og hefur verið í herbúðum West Ham frá miðju sumri 2008 en félagið keypti hann þá af HK.

mbl.is