Skora á Ferguson að segja af sér

Alex Ferguson á von á áskorun frá stuðningsmönnum United.
Alex Ferguson á von á áskorun frá stuðningsmönnum United. Reuters

Hópur stuðningsmanna Manchester United sem berst fyrir því að losa félagið við eignarhald bandarísku Glazer-fjölskyldunnar, hyggst skora á Alex Ferguson knattspyrnustjóra að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að segja starfi sínu lausu í mótmælaskyni.

Baráttufundur var haldinn fyrir leik United gegn Burnley á laugardaginn. Fyrrum formaður „Samtaka óháðra stuðningsmanna Manchester United", Johnny Flacks, lagði þar þessa tillögu fram og fékk miklar og góðar undirtektir fundarmanna.

„Þetta á ekki að beinast gegn Alex Ferguson. En hann segist vera sósíalisti, fyrrum afgreiðslumaður og maður fólksins, svo hann hlýtur að vera miður sín yfir því sem er í gangi hjá félaginu. Þetta myndi virka ef þúsundir stuðningsmanna myndu senda Ferguson þetta bréf, þar sem fram kemur að við óttumst að ef Glazerarnir verða áfram við völd verði arfleið hans hjá félaginu eyðilögð. Það vill enginn okkar og hann örugglega ekki heldur," sagði Flacks við Irish Times.

Fundinum var  fylgt eftir með mótmælum á leiknum við Burnley, þar sem stuðningsmennirnir drógu fram risastóran borða sem á stóð: „Love United, hate the Glazers.“

Manchester United er afar skuldsett undir stjórn Glazer-fjölskyldunnar, sem hefur látið í ljós hugmyndir um að m.a. selja bæði Old Trafford og Carrington-æfingasvæðið, og taka risastórt lán til að létta á fjárhagsstöðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert