Newcastle nálgast úrvalsdeildina

Andy Carroll skoraði tvö mörk fyrir Newcastle í kvöld.
Andy Carroll skoraði tvö mörk fyrir Newcastle í kvöld. Reuters

Newcastle styrkti enn frekar stöðu sína á toppi ensku 1. deildarinnar í knattspyrnu í kvöld með því að vinna öruggan sigur á Scunthorpe, 3:0, á heimavelli sínum, St. James' Park.

Newcastle náði þar með fjögurra stiga forskoti á WBA á toppnum og er nú 12 stigum á undan Nottingham Forest sem er í þriðja sætinu, en tvö efstu liðin fara beint upp. Að auki á Newcastle leik til góða á báða keppinautana og á eftir að spila 10 leiki en bæði WBA og Forest eiga 9 leiki eftir.

Andy Carroll skoraði tvö marka Newcastle í kvöld og hefur nú skorað 14 mörk í vetur. Danski framherjinn Peter Lövenkrands gerði eitt mark og hefur þá skorað í síðustu fimm leikjum liðsins.

Newcastle féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor eftir 16 ára dvöl, og stefnir beint þangað aftur. Félagið er eitt af þeim 20 stærstu í Evrópu, samkvæmt nýlegri samantekt.

mbl.is

Bloggað um fréttina