Henry: Vælukjóar í Arsenal

Karl Henry á fleygiferð á eftir Tomás Rosický, sem lá …
Karl Henry á fleygiferð á eftir Tomás Rosický, sem lá í grasinu örskömmu síðar. Reuters

Karl Henry, leikmaður Wolves, er afar ósáttur við rauða spjaldið sem hann fékk í leik liðsins við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Hann segir að leikmenn Arsenal séu vælukjóar sem hendi sér niður til að reyna að koma mótherjunum af velli.

Henry fékk rauða spjaldið á 65. mínútu fyrir að brjóta á Tomás Rosický, sem var með sjáanlega áverka á kálfa eftir atganginn. Henry segir hinsvegar að úrskurður dómarans sé hneyksli.

„Þeir voru stálheppnir að skora mark í leiknum og heppnir að dómarinn rak mig af velli, sem var hreinn brandari. Ég fór í návígið til að vinna boltann, Rosický fór þvert fyrir mig og skýldi boltanum en þá var ég þegar kominn niður. Þá kom einn þeirra manna, Vermaelen, á fleygiferð ásamt fleirum og heimtaði að ég yrði rekinn útaf. Þetta myndi ég aldrei gera, reyna að fá dómarann til að reka mótherja af velli. Ég er búinn að skoða atvikið aftur, og það er greinilegt að ég náði boltanum. Þetta  var aldrei rautt spjald, það er hneyksli," sagði Henry við vef Wolves.

Rosický þurfti að fá aðhlynningu utan vallar í tvær mínútur eftir atvikið. „Svo var hann bara kominn á fulla ferð, ekkert að honum. Svona haga þeir sér og þetta er ekki fallegt. Leikmenn Arsenal væla þegar þeir eru tæklaðir og sama er að segja um Arsene Wenger. Á þeirra heimavelli sérstaklega, þar væla þeir endalaust, og hrynja í grasið eins og mjölpokar. Það er tekið vel á móti þeim eins og öðrum liðum en þeir væla og skæla yfir því vikum saman. Þeir spila góðan fótbolta og eru með frábært lið en framkoma þeirra er óskemmtileg.

Margir elska flottan fótboltann sem Arsenal spilar, en þegar maður horfir á leikmenn liðsins velta sér um völlinn til að reyna að fá mótherjana rekna af velli, hættir maður að vonast til þess að þeir nái langt," sagði Karl Henry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert