Ancelotti: Cole verður um kyrrt

Joe Cole.
Joe Cole. Reuters

Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea reiknar með að miðjumaðurinn Joe Cole haldi kyrru fyrir hjá félaginu en Cole er einn nokkurra leikmanna Lundúnaliðsins sem verður með lausan samning eftir tímabilið.

Cole hefur verið orðaður við mörg lið, þar á meðal Manchester City, Liverpool og Tottenham, á undanförnum vikum en samningaviðræður hans við Chelsea hafa ekki skilað árangri hingað til. Þeim hefur nú verið slegið á frest þar til eftir tímabilið.

,,Joe verður hjá okkur áfram. Ég sagði í janúar að enginn kæmi til okkar og enginn kom svo ég reikna með því að Joe verði um kyrrt. Chelsea mun ræða við Cole og fleiri leikmenn eftir tímabilið,“ sagði Ancelotti en hans menn geta lyft tveimur bikurum á loft á næstu vikum. Á sunnudaginn tryggir liðið sér Englandsmeistaratitilinn takist liðinu að leggja Wigan að velli og um aðra helgi leikur liðið til úrslita við Portsmouth í ensku bikarkeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina