Voronin: Terry reynir að meiða mótherjana

Andriy Voronin í leik með Liverpool.
Andriy Voronin í leik með Liverpool. Reuters

Andriy Voronin, úkraínski knattspyrnumaðurinn sem lék með Liverpool um skeið, segir að enskir varnarmenn með John Terry í fararbroddi sitji um að meiða andstæðinga sína og enskir fótboltaáhugamenn hafi mest gaman af því að sjá blóð renna í leikjum.

Voronin náði sér aldrei á strik með Liverpool og fór þaðan til Dinamo Moskva í Rússlandi í janúar. Hann gekkst í vikunni undir aðgerð til að láta laga á sér nefið eftir högg sem hann fékk frá John Terry í landsleik Englands og Úkraínu á síðasta ári, og í kjölfarið sendi hann Terry og fleirum tóninn í viðtali við blað í heimalandi sínu.

„Terry gat ekki komið boltanum almennilega í burtu svo hann sló mig bara í andlitið. Hann er fífl og ég tel að hann hafi gert þetta af ásettu ráði. Terry er mjög illgjarn, og sama er að segja um Jamie Carragher og Rio Ferdinand. Þeir eru meistarar í því að meiða mótherja," sagði Voronin, en þess ber að geta að á sínum tíma var ekkert annað að sjá en að höggið sem Úkraínumaðurinn fékk frá Terry hefði verið hreint óhapp.

Voronin hélt áfram og hraunaði yfir enskan fótbolta og enska áhorfendur í leiðinni. „Englendingar eru eins og rándýr. Þeir vilja bara blóð. Ef engum blæðir, enginn fær höfuðhögg og rotast eða fótbrotnar, telja áhorfendur að þeir hafi verið sviknir, það hafi ekkert verið varið í leikinn.

Hraðinn er brjálæðislegur frá fyrstu mínútu til síðustu. Einbeitingin er gífurleg, svakaleg stemmning á völlunum, en leikaðferðirnar eru einfaldar. Menn dúndra bara boltanum 50 metra fram völlinn og hópast svo uppað marki mótherjanna til að reyna að skora," sagði Voronin, sem sjálfum gekk illa í Englandi og náði bara að skora 5 mörk fyrir Liverpool á þremur árum hjá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert