Blekkti Ferguson Fabio Capello?

Sir Alex Ferguson og hans menn fögnuðu Samfélagsskildinum í gær.
Sir Alex Ferguson og hans menn fögnuðu Samfélagsskildinum í gær. Reuters

Mikla athygli vakti í gær að miðvallarleikmaðurinn Micheal Carrick skyldi spila fyrir Manchester United í leiknum við Chelsea um Samfélagsskjöldinn. Fyrir helgi tilkynnti Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United að Carrick yrði frá keppni vegna meiðsla næstu tvær vikur.

Carrick var af þessum sökum vitaskuld ekki valinn í landsliðshópinn sem Fabio Capello tilkynnti á laugardagskvöld fyrir æfingaleik Englands og Ungverjalands á miðvikudaginn. Capello virtist því hissa að sjá Carrick spila í gær.

„Ég hélt að þú værir meiddur,“  á Capello að hafa sagt við Carrick þegar hann óskaði honum til hamingju á Wembley-leikvanginum.

Sir Alex Ferguson segir það ekki hafa meininguna að blekkja Capello til að hlífa Carrick við að spila með landsliðinu, nú þegar enska úrvalsdeildin er að byrja.

„Á föstudaginn var ég handviss um að hann yrði frá keppni í tvær vikur. Svo kom hann og sagðist vera orðinn heill heilsu og vildi æfa, og hann æfði og spilaði. Fyrst að hann sagðist vera orðinn heill vildum við láta hann spila því hann vantar leikæfingu. Þetta snerist ekki um að leika á knattspyrnusambandið. Ég veit ekki hvort hann verður kallaður inn núna. Kannski gerist það,“  sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina