Óvissa með Rooney vegna blaðaskrifa

Wayne Rooney ásamt Fabio Capello landsliðsþjálfara á æfingu enska landsliðsins.
Wayne Rooney ásamt Fabio Capello landsliðsþjálfara á æfingu enska landsliðsins. Reuters

Þátttaka Waynes Rooneys í leik Englands gegn Sviss í undankeppni EM í knattspyrnu er í óvissu í kjölfarið á blaðaskrifum um hann í Englandi um helgina.

Tvö blöð, News of the World og Sunday Mirror, fjölluðu á óvæginn hátt um einkalíf Rooneys um helgina og í kjölfarið var búist við því að hann drægi sig útúr enska landsliðshópnum.

Samkvæmt bæði BBC og SkySports er gert ráð fyrir því að Rooney verði með í för þegar enska liðið heldur til Sviss í dag en enska knattspyrnusambandið hefur ekki gefið neitt formlegt út um málið.

Rooney átti stórleik á föstudagskvöldið þegar England vann Búlgaríu, 4:0, og lagði upp þrjú marka liðsins fyrir Jermain Defoe.

mbl.is

Bloggað um fréttina