Ferguson: Grátlegt að sjá hvernig við köstuðum þessu frá okkur

Alex Ferguson ekki hress á svip á Goodison Park í ...
Alex Ferguson ekki hress á svip á Goodison Park í dag. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var að vonum niðurlútur eftir leik sinna manna gegn Everton á Goodison Park í dag. United kastaði frá sér sigrinum. Liðið var 3:1 yfir þegar komið var fram á 90. mínútu en Everton náði að jafna með tveimur mörkum í uppbótartíma.

,,Við köstum sigrinum gjörsamlega frá okkur og þetta er annar útleikurinn í röð sem slíkt gerist. Við fengum á okkur mark á lokamínútunum á móti Fulham og það gerðist aftur í dag,“ sagði Ferguson við Sky Sports.

,,Við áttum tækifæri til nánast jarðsetja Everton liðið en við gerðum það ekki. Við fórum illa með góð færi í leiknum en ég var ánægður með spilamennsku minna manna stóran hluta leiksins. Við spiluðum góðan fótbolta en það var grátlegt að sjá hvernig við fórum að ráði okkar undir lokin,“ sagði Ferguson.
mbl.is

Bloggað um fréttina