Wenger: Læt mér ekki detta þetta í hug aftur

Xabi Alonso gengur af velli eftir að hafa fengið rauða ...
Xabi Alonso gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið í Amsterdam. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkennir að hafa hugleitt að biðja sinn leikmann um að fá spjald af ásettu ráði. Eftir að hafa séð atvikin í leik Ajax og Real Madrid kveðst hann hinsvegar aldrei munu láta sér detta það í hug aftur.

UEFA rannsakar nú hvort José Mourinho hafi fyrirskipað Sergio Ramos og Xabi Alonso að fá sitt annað gula spjald og þar með rauða í umræddum leik í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld, til að geta tekið út leikbönn í leik sem skipti ekki máli.

„Ég viðurkenni hreinskilnislega að mér hefur dottið þetta sama í hug. En að sjá hvernig þetta leit út í sjónvarpi var alveg nóg fyrir mig. Ég læt mér ekki detta þetta í hug aftur. Ég skora á aðra að fara eftir því, þar sem þetta lítur hreint hræðilega út," sagði Wenger.

„Það er synd að sjá stórt félag gera svona hluti," sagði Wenger en vildi ekki tala um svindl. „Þið getið kallað þetta hvað sem þið viljið en svona nokkuð vill maður ekki sjá á fótboltavelli. Þar  vill maður sýna þeim sem greiða  aðgangseyrinn fulla virðingu. Þeir vilja sjá fótboltaleik, ekki svona sjónarspil. Hvort sem Arsenal eða Real Madrid á í hlut, þá vill enginn þurfa að horfa uppá svona lagað," sagði Wenger.

mbl.is