Redknapp rændur og Forlán of dýr

Harry Redknapp og Kevin Bond í leik með Tottenham.
Harry Redknapp og Kevin Bond í leik með Tottenham. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, hafði lítið uppúr krafsinu þegar hann brá sér til Spánar á miðvikudaginn. Hann var rændur á heimavelli Atlético Madrid og sagði að Úrúgvæinn Diego Forlán væri of dýr til að Tottenham gæti keypt hann.

Redknapp fór ásamt aðstoðarmanni sínum Kevin Bond, á bikarleik Atlético Madrid og Real Madrid, m.a. til að skoða Diego Forlán, sem var kjörinn besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar síðasta sumar.

„Það hefur verið rætt um Diego Forlán en við ráðum ekki við launin hans. Hann fær yfir 100 þúsund pund á viku og okkar stjórnarformaður greiðir engum slík laun, það er á hreinu. Forlán er áhugaverður leikmaður, virkilega góður. En það var erfitt að einbeita sér að leiknum því ég var rændur áður en hann hófst. Eða réttara sagt var stolið úr vösunum hjá mér. Ótrúlegt," sagði Redknapp við BBC.

Hann skýrði frá því að þeir Bond hefðu verið að kaupa sér sælgæti fyrir utan leikvanginn þegar hann fann að togað var í frakkann hans. Þegar betur var aðgáð höfðu vasarnir verið tæmdir.

mbl.is

Bloggað um fréttina