Redknapp með augastað á Bojan

Bojan í leik með Barcelona gegn Almeria.
Bojan í leik með Barcelona gegn Almeria. Reuters

Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham hyggst reyna að krækja í framherjann Bojan Krkic frá Barcelona í sumar. Krkic, sem er 20 ára gamall, hefur fengið fá tækifæri með Börsungum á þessu tímabili enda erfitt um vik þar sem þeir Lionel Messi, David Villa og Pedro hafa raðað inn mörkum fyrir Katalóníuliðið og þá er ekki langt um liðið síðan Barcelona keypti sóknarmanninn Ibrahim Afellay frá Ajax.

Bojan hefur látið hafa eftir sér að enska úrvalsdeildin sé mjög heillandi en Redknapp hefur ekki verið allt of sáttur við nýtingu framherja sinna á marktækifærunum. Þeir voru til að mynda ekki á skotskónum í vikunni þegar Tottenham tapaði fyrir Blackpool, 3:1. Í þeim leik fékk Tottenham vel á annan tug færa.

mbl.is