Chelsea og Man.City í slæmum málum

Chelsea og Manchester City eru rekin með miklu tapi.
Chelsea og Manchester City eru rekin með miklu tapi. Reuters

Chelsea og Manchester City eiga langt í land með að uppfylla skilyrði til þátttöku í Evrópumótunum í knattspyrnu samkvæmt nýjum reglum um fjárhagslega háttvísi sem taka gildi eftir tvö ár.

Samkvæmt þeim reglum geta knattspyrnufélög ekki skilað taprekstri ár eftir ár en þá missa þau þátttökurétt í Evrópumótunum stóru, Meistaradeildinni og Evrópudeild UEFA.

Á síðasta ári nam taprekstur Manchester City 110 milljónum punda og hjá Chelsea var tapið 50 milljónir punda. Samkvæmt nýju reglunum mega félög ekki eyða meiri fjármunum en þau afla með tekjum af fótboltanum sjálfum.

Samkvæmt samantekt BBC er langur vegur frá því að þessi tvö félög eigi möguleika á að vera komin með sín mál í lag eftir tvö ár. Sérfræðingur stöðvarinnar segir að Chelsea gæti bjargað sínum málum með nýjum og mun stærri leikvangi. Manchester City þyrfti hinsvegar að komast nokkrum sinnum í Meistaradeildina, hækka miðaverð og gjörbylta sínum tekjuleiðum til að eiga möguleika á að uppfylla reglurnar.

Fram kemur að hin tvö toppliðin í Englandi, Manchester United og Arsenal, séu hinsvegar í mjög góðum málum.  Arsenal sé fyrirmynd annarra félaga eins og áður hefur komið fram en félagið skilaði 55 milljón punda hagnaði af knattspyrnulegum rekstri sínum á síðasta ári. United var með 42 milljónir í hagnað á sama tíma.

mbl.is