Ancelotti: Torres í sömu stöðu og Rooney var í

Fernando Torres á ekki sjö dagana sæla þessa dagana.
Fernando Torres á ekki sjö dagana sæla þessa dagana. Reuters

,,Vitaskuld er Torres ekki ánægður. Hann er vonsvikinn en hann verður að sýna skapgerð," sagði Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea við fréttamenn í dag þegar hann var spurður út í framherjann Fernando Torres.

Torres hefur enn ekki tekist að skora fyrir Chelsea en hann hefur tekið þátt í 11 leikjum með liðinu frá því hann var keyptur frá Liverpool í lok janúar fyrir rúma 9 milljarða króna.

,,Wayne Rooney lenti í sömu stöðu. Hann spilaði ekki vel og tókst ekki að skora í mörgum leikjum. Allir hjá Manchester United héldu tryggð við hann og höfðu trú á honum. Það trúðu því allir að hann gæti snúið blaðinu við og hann gerði það. Rooney spilar frábærlega um þessar mundir.

Eitt mark myndi gefa Torres tækifæri til að komast á skrið. Kaupin á honum voru frábær. Ekki bara núna heldur fyrir framtíðina. Að dæma hann núna er ekki rétt. Við verðum að bíða og sjá. Hann verður frábær leikmaður til framtíðar hjá Chelsea,“ sagði Ancelotti.

Kannski tekst Torres að brjóta ísinn á morgun en þá sækir Chelsea lið WBA heim í ensku úrvalsdeildinni.
mbl.is

Bloggað um fréttina